Hólmsá friðlýst gegn orkuvinnslu

Axlarfoss í Hólmsá. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

Umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í dag friðlýsingu efsta hluta vatnasviðs Hólmsár gegn orkuvinnslu í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.

„Ég fagna því mjög að þessum áfanga er náð enda er um stórkostlega náttúru að ræða á þessu svæði sem sómir sér mun betur vernduð en virkjuð. Þar með eru perlur eins og Hólmsárlón, Brytalækir og Axlarfoss komnar í var fyrir virkjunaráformum á hálendinu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hólmsá kemur upp í Hólmsárbotnum suðaustur af Torfajökli. Í hana falla miklar lindir, þar á meðal Brytalækir að vestan og eins jökulkvíslar undan Mýrdalsjökli. Áin rennur víða í gljúfrum og í henni eru fjölmargir hólmar og nokkrir fossar, þar með talinn Axlarfoss.

Ýmsar virkjunarhugmyndir hafa komið fram varðandi Hólmsá og fengið umfjöllun í rammaáætlun. Einn þeirra virkjunarkosta náði til efsta hluta vatnasviðs árinnar en Alþingi ákvað árið 2013 að hann skyldi fara í verndarflokk áætlunarinnar. Tilgangur og markmið friðlýsingarinnar er að vernda vatnasvið efsta hluta Hólmsár gegn orkuvinnslu í samræmi við ákvörðun Alþingis. Friðlýsingin nær ekki til alls vatnasviðsins vegna hugmynda um virkjanir neðar í ánni sem eru í biðflokki rammaáætlunar. Friðlýsta svæðið er 196 ferkílómetrar að stærð og nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu með vatnsafli.

Fyrri greinFimm teknir próflausir í umferðinni
Næsta greinSaxafóngeggjun á Suðurlandsdjazzinum