Hollywood-stjörnur á Klaustri

Tökur á Interstellar, kvikmynd Christophers Nolans, hófust í dag við Kirkjubæjarklaustur. Öll hótel á svæðinu eru uppbókuð auk þess sem sumir íbúar Klausturs hafa leigt húsin sín út til tökuliðsins.

Sumarbústaðaeigendur á svæðinu hafa einnig komist í feitt og leigt út húsin sín.

Um 120 manns búa á Klaustri, íbúatala bæjarins hefur því næstum þrefaldast en rúmlega 300 manns koma að tökum myndarinnar hér á landi.

Tökurnar fara að mestu leyti fram við Orrustuhól og Svinafellsjökul en þjóðgarðsvörður gaf Saga Film, sem þjónustar tökuliðið hér á landi, leyfi fyrir því að loka völdum gönguleiðum við jökulinn.

Þótt tökurnar sjálfar standi ekki yfir nema í tvær vikur er undirbúningur vegna myndarinnar búinn að vera í gangi í þrjár vikur. Auglýst var eftir húsum til að leigja og eftir því sem fréttastofa kemst næst brugðust allnokkrir íbúar vel við þeim óskum.

Smiðir unnu hörðum höndum að því að reisa leikmynd fyrir kvikmyndatökuliðið í tæka tíð – allur bærinn er undirlagður af stórmyndinni og íbúarnir eru þöglir sem gröfin. Enda mikil leynd sem hvílir yfir þessa mynd.

Meðal leikenda í myndinni eru Hollywood-stjörnurnar Matt Damon, Anne Hathaway og Matthew McConaughey og komu þau á Klaustur í gærkvöldi og í morgun.

Ríkisútvarpið greinir frá þessu

Fyrri greinVíðir yfirlæknir á bráðamóttöku
Næsta greinSýnum tillitssemi á Heiðinni