Hófu framkvæmdir án leyfis

Iðnaðarráðuneytið gaf í fyrradag út starfsleyfi til að hefja framkvæmdir við gerð varnargarðs við Markarfljót, hálfum mánuði eftir að framkvæmdir hófust.

Siglingastofnun, sem er framkvæmdaraðilinn, sótti ekki um ráðherraleyfi sem kveðið er á um í vatnalögum þar sem lagatúlkun stofnunarinnar var sú að þess þyrfti ekki.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn til Kristjáns Skarphéðinssonar, ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins, á miðvikudag þar sem spurt var hvort Skipulagsstofnun hefði sótt um starfsleyfið. Þau svör fengust að ekkert erindi hefði borist ráðuneytinu um framkvæmdir við Markarfljót.

Í svari Kristjáns við frekari fyrirspurnum Fréttablaðsins um málið á fimmtudag kom fram að vatnalögin frá 1923 væru vissulega í fullu gildi og samkvæmt ákvæðum 133. greinar laganna beri framkvæmdaraðila [Siglingastofnun] að tilkynna ráðherra og fá leyfi hans. „Í þessu felst að ákvörðun ráðherra um það hvort viðkomandi framkvæmd er leyfisskyld þarf að liggja fyrir áður en ráðist er í framkvæmdir.“

Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar, taldi túlkun ráðuneytisins á lögunum ranga því heimilt sé, bæði samkvæmt vatnalögum og lögum um flóðvarnir í Markarfljóti, að fara í framkvæmdir án leyfis ráðherra.

Sigurður segir í samtali við Fréttablaðið að stofnunin hafi verið komin með heimild til framkvæmda frá sveitarfélaginu um miðjan desember og talið það fullnægjandi. Sveitarfélagið hafi leitað til opinberra aðila áður en framkvæmd var heimiluð og það verið mat stofnunarinnar að ekki væri nauðsynlegt að fá heimild frá öðrum aðilum.

Ráðuneytið kallaði í gær á sinn fund sveitarstjóra Rangárþings eystra, fulltrúa Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Orkustofnunar og Siglingastofnunar. Fyrir fundinum lá umsókn Siglingastofnunar um leyfi til framkvæmda við Markarfljót. Á fundinum kom fram að öll skilyrði væru fyrir útgáfu leyfis á grundvelli vatnalaga og ráðuneytið gaf út framkvæmdaleyfið síðar um daginn, að sögn Kristjáns ráðuneytisstjóra.

Gerð bráðabirgðavarnargarðsins, sem er 600 metra langur, vestan Markarfljóts færir farveg fljótsins austur um 400 metra. Með nýja varnargarðinum er reiknað með að framburður fljótsins berist síður fyrir hafnarmynnið í Landeyjahöfn.

Vísir greindi frá

Fyrri greinFullur að flýta sér
Næsta greinVatnavextir í Hvítá