Hófu byggingu einbýlishúss of nálægt Ytri-Rangá

Þrátt fyrir að ekki sé heimilt að byggja byggingar innan 50 metra frá Ytri-Rangá hafa eigendur í Svínhaga á ofanverðum Rangárvöllum nú þegar steypt grunn að 200 fermetra íbúðarhúsi um 20 metra frá ánni.

Þetta kom fram við eftirlit byggingarfulltrúa og grunnur hússins er utan við skipulagðan byggingarreit sem óskað hafði verið eftir. Svo virðist sem yfirvöld í Rangárþingi ytra hyggist ekki gera frekari athugasemdir við málið, og virðist sem málið sé flókið lögfræðilega. Ekki náðist í sveitarstjóra vegna málsins en afstaða Skipulagsstofnunar liggur fyrir og er umsögn hennar neikvæð.

Áform eru uppi um að byggja einbýlishús ásamt bílgeymslu, gestahúsum og véla- og tækjageymslu á svæðinu, en landsvæðið sem um ræðir er rúmir þrír hektarar að stærð. Þegar heimild var gefin til breytinga á deiliskipulagi á umræddum reit kom fram athugasemd frá landeigendum í Selsundi þar sem lýst var ágreiningi um eignarhald á tilteknum spildum.

Þá taldi skipulagsnefnd hreppsins sig ekki hafa forsendur til að véfengja eignarhald umsækjanda og rétt hans til að deiliskipuleggja land sitt, þrátt fyrir framkomnar athugasemdir eigenda Selsundsjarðarinnar um landamerki. Tók því deiliskipulag fyrir umrædda landspildu gildi í október í fyrra.

Nú liggur fyrir sveitarstjórn að taka ákvörðun um framhald málsins, en ljóst er að grunnur mannvirkisins hefur verið settur utan við skipulagðan byggingarreit og staðsetning grunnsins stenst ekki lögbundin fjarlægðarmörk.

Fyrri greinKirkjubekkjaenglar gæta kirkjugesta
Næsta greinVísindavika á Örk