Höfnuðu beiðni um niðurfellingu gjalda

Bæjarráð Árborgar hefur hafnað beiðni Félags eldri borgara á Eyrarbakka um niðurfellingu fasteignagjalda íbúa 70 ára og eldri.

Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga kemur fram að heimilt sé að lækka eða fella niður fasteignaskatt á tekjulitla elli- eða örorkulífeyrisþega.

Garðavær samþykkti fyrir nokkrum árum að gefa fastan afslátt á alla elli- og örorkulífeyrisþega óháð tekjum en Samgönguráðuneytið úrskurðaði að þær reglur væru ekki í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði þar sem heimildin eigi eigi einungis við tekjulitla einstaklinga.

Með vísan til þessa telur bæjarráð Árborgar að óheimilt sé lögum samkvæmt að verða við beiðni Félags eldri borgara á Eyrarbakka.

Nú þegar er veittur afsláttur til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega í Árborg af fasteignaskatti og fráveitugjaldi. Bæjarráð bendir á að álagningarhlutfall fasteignaskatts lækkar á milli ára hjá sveitarfélaginu og áætlað er að það lækki enn frekar á árunum 2013 og 2014.

Þá bendir bæjarráð eldri borgurunum á að það sé ekki í valdi sveitarfélagsins að hafa áhrif á breytingar á fasteignamati sem virðist vera mjög sveiflukennt á Eyrarbakka og Stokkseyri.