Höfðingleg gjöf úr Ólafssjóði

Fyrir skömmu var stjórn Ólafssjóðs og kvenfélögum þeim sem að honum standa boðið til kaffisamsætis á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu.

Tilefnið var að þakka fyrir þá höfðinglegu gjöf sem þessi félög færðu Lundi á dögunum en það er standlyftari að verðmæti rúmlega 700.000 krónur.

Minningarsjóður Ólafs Björnssonar var stofnaður árið 1970 af nokkrum kvenfélögum í Hellulæknishéraði, en það náði yfir Rangárvallasýslu vestan Eystri-Rangár. Ólafur Björnsson var fyrsti læknir í Hellulæknishéraði sem stofnað var árið 1956 og þjónaði því til dauðadags árið 1968.

Hann var frumkvöðull á mörgum sviðum, meðal annars vann hann að rannsóknum vegna heymæði sem þá var lítt þekktur sjúkdómur en hrjáði marga bændur og hann hvatti konur til þess að fara í hópferð til krabbameinsskoðunar sem þá var aðeins mögulegt í Reykjavík.

Ólafssjóður hefur allt frá byggingu Lundar staðið veglega að stuðningi við stofnunina.

Fyrri greinFíkniefnaneytendur á ferðinni á grunnskólalóð
Næsta greinSkaftfellingar keppa í kvöld