Höfðingleg gjöf til leikskóladeildar Víkurskóla

Ársæll Guðlaugsson og Bryndís Harðardóttir, eigendur fyrirtækisins Framrás ehf., í Vík í Mýrdal komu færandi hendi á dögunum á lóð leikskólans í Vík og gáfu skólanum ný útileiktæki.

Viðstaddir voru sveitarstjórnarmenn, stjórnendur Víkuskóla og starfsmenn leikskólans, ásamt börnum. Við það tækifæri sagði Bryndís að þegar hún bauð sig fram í sveitarstjórn 1998 hefði það verið eitt af áherslumálum þess framboðs að sameina allt skólastarf í sveitarfélaginu og því væri það henni sérstakt fagnaðarefni að öll skólastarfsemi væri nú undir sama þaki.

Viðstaddir færðu Framrás þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf og Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri, prófaði meðal annars eitt leiktækið með krökkunum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.