Hnökkum stolið á Selfossi

Hnökkum var stolið úr tveimur hesthúsum í hesthúsahverfinu á Selfossi um helgina.

Á milli klukkan 15 og 16 síðastliðinn laugardag var hnakki stolið úr hesthúsi við Norðurtröð. Hnakkurinn er af tegundinni Ástund 2000, svartur að lit. Verðmæti hans er talið vera um 200 þúsund krónur.

Eigandinn hafði farið í hesthúsið og farið frá því ólæstu í um klukkustund. Þegar hann kom aftur var hnakkurinn horfinn.

Einnig var farið inn í hesthús við Bæjartröð og þaðan stolið Royal Air Ástundarhnakki með koparístöðum. Þar var einnig stolið hófhlífum. Hnakkurinn er rúmlega fimm ára og verðmæti hans talið vera á milli 200 til 250 þúsund krónur.

Eigandinn uppgötvaði þjófnaðinn síðdegis á hvítasunnudag en hann hafði verið í hesthúsinu fyrr um morguninn.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um þessi mál eru beðnir um að hafa samaband í síma lögreglu 480 1010.