Hnefarnir látnir tala um helgina

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningar um þrjár líkamsárásir um helgina. Ein átti sér stað í reiðhöllinni í Þorlákshöfn og tvær við skemmtistaði á Selfossi.

Tvær voru minni háttar þar sem kastast hafði í kekki milli manna og þeir náð sáttum og ekkert verður aðhafst vegna þeirra.

Í þriðja tilvikinu var ungur maður nefbrotinn þegar hann var sleginn tveimur hnefahöggum í andlitið við skemmtistaðinn Hvítahúsið á Selfossi um fjögurleytið aðfaranótt sunnudagsins.

Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn en grunur er um hver hann er. Málið er í rannsókn.