Hluta Þingvallavegar lokað á meðan á björgunaraðgerðum stendur

Frá leitinni á Þingvallavatni í síðustu viku. Ljósmynd: Björgunarsveitin Björg/Ægir Guðjónsson

Hluti Þingvallavegar verður lokaður fyrir alla almenna umferð á morgun frá klukkan 8:00 og fram á kvöld, á meðan björgunaraðgerðir standa yfir í Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni.

Lokunarpóstar verða við afleggjara að Steingrímsstöð og við Veiðilund. Umferð verður ekki hleypt að Steingrímsstöð.

Í dag hefur verið unnið að uppsetningu vinnubúða vegna björgunaraðgerðanna. Settar hafa verið upp tjaldbúðir með aðstöðu fyrir björgunarmenn, á vettvangi verður gámur með jafnþrýstiklefa fyrir kafara og einnig verður Björninn, fjarskiptabíll Landsbjargar á vettvangi til sérhæfðra fjarskipta. Þá er annar búnaður sem fylgir starfsemi Köfunarþjónustunnar ehf og eins frá Sjótækni ehf og er nauðsynlegur vegna notkunar á prömmum fyrirtækjanna við björgunaraðgerðir.

Gert er ráð fyrir að allir aðilar verði með sinn búnað tilbúinn á vettvangi kl. 9:00 í fyrramálið. Þá munu fara fram þær prófanir sem ekki er hægt að gera fyrirfram og í framhaldi af því hefjast aðgerðir á því að bjarga líkum mannanna fjögurra af botni vatnsins. Takist að ná þeim upp verða þau flutt beint til Reykjavíkur. Þar mun réttarlæknir framkvæma líkskoðun og í framhaldi af því verður aðstandendum gefinn kostur á að eiga stund, hver með sínu fólki.

Flugvélin hífð upp á föstudag
Ekki er reiknað með að farið verði í aðgerðir til að hífa flugvélina upp á morgun en mögulega verður kafað að flakinu og undirbúningur hafinn. Gangi allt að óskum er þess vænst að flugvélin verði hífð upp seinni part föstudags.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að öll þessi aðgerð sé nákvæmnisverk og síðustu dagar hafa verið nýttir til ítarlegs undirbúnings sem hefur það að megin markmiði að tryggja öryggi björgunarmanna og síðan að leggja áherslu á að ná líkunum upp úr vatninu. Þá liggur fyrir að Þingvallaþjóðgarður er á heimsminjaskrá og að í Þingvallavatni er viðkvæmt lífríki sem þarf að vernda. Því hefur undirbúningur miðast að því tryggja að því lífríki sé ekki hætta búin. Allar aðgerðir eru afmarkaðar í skrefum þar sem einstakir rannsóknarþættir verða framkvæmdir og sönnunargögn tryggð.

„Veðurspá er okkur hliðholl en þó má vænta einhverra élja eftir miðjan dag á morgun. Verði mat manna á vettvangi þannig að ekki náist að tryggja öryggi kafara verður aðgerðum frestað,“ segir lögreglan.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur ákveðið að banna yfirflug allra loftfara um svæðið frá kl. 9:00 í fyrramálið til kl. 18:00 og aftur á föstudagsmorgun á sama tíma. Fyrir liggur að nota þarf dróna lögreglu við aðgerðina og eins mun þyrla Landhelgisgæslunnar vera í viðbragðsstöðu til flugs á vettvang ef þarf.

Fyrri greinRúmlega þúsund Sunnlendingar í einangrun og sóttkví
Næsta greinUngmennaliðið á flugi gegn Haukum