Hluta hótelsins breytt í húsnæði fyrir starfsfólk

Framkvæmdir við fjölgun hótelherbergja á Hótel Kötlu á Höfðabrekku í Mýrdal ganga vel. Þar er verið að bæta við 30 herbergjum sem taka á í notkun í haust.

Nýbyggingin er gerð úr forsteyptum einingum sem keyptar eru hjá Loftorku í Borgarnesi. Það er fyrirtækið Pro Ark á Selfossi sem sá um hönnun og teikningu byggingarinnar.

Að sögn Björgvins Jóhannessonar, hótelstjóra er um að ræða herbergi í stærra lagi, rúmgóð herbergi að upplagi en einnig sérstök fjölskylduherbergi sem verða enn stærri. Þetta er til viðbótar 72 herbergjum sem fyrir eru á hótelinu að Höfðabrekku.

„Við munum reyndar breyta elsta húsnæðinu okkar í starfsmannahúsnæði,“ segir Björgvin, sem segir sína sögu um þróunina í ferðamennsku. Allsstaðar vanti starfsfólk og ekki um neitt annað að ræða en að útvega því húsnæði, til lengri og skemmri tíma.

„Hér vantar starfsfólk á svæðið og við sáum það hversu eftirspurnin var mikil þegar byggðar voru íbúðir í Vík að þær seldust strax,“ segir Björgvin.

Stutt er síðan móttakan á Hótel Kötlu var stækkuð myndarlega og veislusalur byggður á eftir hæð þess húsnæðis. „Það er stutt í hann verði tilbúinn,“ segir hótelstjórinn.

Nú eru um 20 starfsmenn við hótelið og mun þeim fjölga í á fjórða tuginn í sumar. Fyrsta útleiga á gistiplássi var á Höfðabrekku árið 1988 en fyrsta gistihúsið var tekið í notkun 1989.

Fyrri greinGuðmundur Ármann: Óásættanlegt ástand á Suðurlandi
Næsta greinSunnlensku liðin töpuðu öll