Hljóp með þýfi í hendur lögreglu

Lögreglan á Selfossi fékk nokkur mál inn á borð til sín þegar hún hafði afskipti af konu í bíl fyrir utan verslun Krónunnar á Selfossi í gær.

Lögreglumenn grunuðu konuna um fíkniefnaakstur og þegar þeir ræddu við hana kom félagi hennar hlaupandi út úr Krónunni með fullt fangið af matvælum, sem hann hafði stolið, og var hann umsvifalaust handtekinn.

Konan var undir áhrifum fíkniefna og við húsleit heima hjá fólkinu á Eyrarbakka fannst þýfi úr að minnsta kosti tveimur innbrotum í sumarbústaði í Grímsnesi.

Fólkinu var sleppt að yfirheyrslum loknum í gærkvöldi.