Hleypur hálfmaraþon með GPS, áttavita og ísöxi – svo fátt eitt sé nefnt

Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður og björgunarsveitarmaður á Selfossi, er einn þeirra sem ætla að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag.

Þorsteinn, sem er félagi í Björgunarfélagi Árborgar, ætlar að gera gott betur en að hlaupa því að í hlaupinu ætlar hann að vera klæddur Landsbjargargallanum með allan útkallsbúnað fyrir undanfara björgunarsveitar.

„Þetta eru sjálfsagt ein tólf til fimmtán kíló sem ég ætla að bera í hlaupinu,“ segir Þorsteinn Tryggvi og telur upp hjálm, höfuðljós, sólgleraugu, skíðagleraugu, auka ullarpeysu, húfu, vettlinga, sokka, skyndihjálparbúnað, samspelku, neyðarskýli, klifurbelti, sigtól, fjórar læstar karabínur, þrjá alpatvista, hníf, prússikbönd, átta metra þarfaspotta, 60 metra klifurlínu, ísöxi, klifurbrodda, snjófljóðaýlu, snjóflóðastöng, skóflu, snjótryggingu, GPS tæki, áttavita, minnisbók og fleira.

Hægt er að heita á Þorstein í hlaupinu á hlaupastyrkur.is en hann hleypur til styrktar Barnaspítala Hringsins auk þess sem félagar hans í björgunarfélaginu ætla að styrkja framtakið og safna fyrir svokölluðum Sked börum.

„Ég hvet alla til að styðja gott málefni og heita á mig eða einhverja af þeim fjölmörgu sem taka þátt í hlaupinu,“ sagði Þorsteinn að lokum.

Fyrri greinEkkert dregur úr skjálftavirkni
Næsta grein„Fagmannleg“ kannabisframleiðsla í sumarbústað