Hlaupvatn úr Hvítá skilar sér á Selfoss í fyrramálið

Ölfusá við Selfoss í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Miklar leysingar hafa verið á Suðurlandi síðastliðinn sólarhring og hafa ár verið að ryðja sig í hlýindunum. Eins og sunnlenska.is greindi fyrst frá fyrr í dag ruddi Stóra-Laxá sig eftir hádegi og skilaði vatnið sér niður að brúarmannvirkjum við Laxárhöfða án þess að tjón yrði af.

Hvítá hljóp fram úr stíflu
Mælar í Hvítá, við Fremstaver, sýndu að um hádegið í dag hljóp fram úr stíflu og samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Suðurlandi fór rennslið um stund upp í rúmlega 700 rúmmetra á sekúndu. Rennsli minnkaði síðan strax aftur og er nú í um 400 rúmmetrum.

Þetta vatn skilar sér fram hjá Selfossi fyrir hádegi á morgun en í kvöld og nótt um Brúarhlöð, Iðu og niður með Hestfjallinu. Til samanburðar má geta þess að rennsli í Ölfusá fór í um 2.500 rúmmetra þegar flæddi árið 2006.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir vatnasvæði Hvítár í dag og undir kvöld til að kanna ástandið.

Krapahlaup geta haldið áfram
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi er almenningur hvattur til að fara varlega á árbökkum í umdæminu því þó nú kólni þá geta krapahlaup verið að skila sér fram næstu daga með tilheyrandi hækkun í ám.

Hvítá við Oddgeirshóla í dag. Ljósmynd/Lögreglan
Fyrri greinSelfoss skoraði 4 mörk í fyrri hálfleik
Næsta greinBúið að opna Heiðina og Þrengslin