Hlaupórói eykst jafnt og þétt

Hlaup í Gígjukvísl. Mynd úr safni.

Á síðustu tveimur sólarhringum hefur vatnsmagn í Gígjukvísl aukist jafnt og þétt. Áin dreifir úr sér í farvegi sínum og vatnshæðarmælir á brúnni á þjóðvegi 1 sýnir að vatnsyfirborðið undir henni hefur risið um rúma 70 cm á tveimur sólarhringum.

Rafleiðni í ánni er einnig byrjuð að hækka lítillega en það eru merki um aukið magn hlaupvatns í ánni. Engin skjálftavirkni hefur mælst í Grímsvötnum eða hlaupfarveginum undir Skeiðarárjökli síðan seinnipartinn í gær. Hlaupórói vex stöðugt á skjálftamælinum á Grímsfjalli, sem bendir til þess að rennsli sé enn að aukast úr Vötnunum.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að áfram sé gert ráð fyrir því að jökulhlaupið nái hámarki í Grímsvötnum um eða fljótlega eftir helgina og í Gígjukvísl 1-2 sólarhringum síðar.

Fyrri greinAð ganga er besta líkamsræktin
Næsta greinAlvarlegt umferðarslys við Skaftafell