Hlaupið mun ekki hafa áhrif á vegi og brýr

Brúin á Gígjukvísl. Mynd/Vegagerðin

Rennsli úr Grímsvötnum nálgast nú tæpa 300 rúmmetra á sekúndu og hefur íshellan þar sem mælitæki eru staðsett sigið um 7 metra.

Vöxturinn er hægari en reiknað var með í upphafi og miðað við þessa þróun er líklegast að hámarksrennsli út úr vötnunum verði seinnipart fimmtudags eða aðfaranótt föstudags. Reikna má með að það taki hlaupvatn um sólarhring að renna undir Skeiðarárjökul frá Grímsvötnum og niður í farveg Gígjukvíslar við þjóðveg 1.

Áfram er reiknað með að hámarksrennsli út úr vötnunum verði um 500 m3/s en líklegt er að rennslið við brúna yfir Gígjukvísl verði minna en út úr vötnunum sjálfum vegna dempunar hlauptoppsins í lónum framan við Skeiðarárjökul. Rennslið við brúna í þessu hlaupi mun því jafnast á við mikið sumarrennsli og ekki hafa nein áhrif á mannvirki svosem vegi og brýr, að því er fram kemur í frétt frá Veðurstofunni.

Lítil sem engin skjálftavirkni er í eldstöðinni og enginn gosórói mælist. Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn.

Fyrri greinMagnús opnar rafeindaþjónustu í bílskúrnum heima
Næsta grein„Gaman að halda upp á 30 ára afmælið“