Yfirstandandi Skaftárhlaup hefur verið nokkuð stöðugt frá því í gær en örlítið hefur dregið úr rennsli, mælist það nú um 160 rúmmetrar vatns á sekúndu (m3/sek) við Sveinstind.
Leiðni í ánni er enn há og áfram má finna brennisteinslykt við árfarveginn. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins.
Út frá óróagögnum, athugunum afkomumælingahóps Jarðvísindastofnunar og Landsvirkjunar á Vatnajökli og InSAR-myndum er líklegast að jökulhlaupið komi úr Vestari-Skaftárkatli, sem síðast hljóp haustið 2021.
