Hlaupið líklega náð hámarki í dag

Vatnamælingamenn Veðurstofunnar að störfum við Gígjukvísl. Mynd úr safni. Ljósmynd: Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson

Nýjustu rennslismælingar í Gígjukvísl sem gerðar voru milli 10.30 -13 í dag gáfu rennsli upp á um 2.800 m3/s. Rennslið mældist um 2.600m3/ síðdegis í gær. Rafleiðni hefur haldist nánast óbreytt frá því í gær, laugardag.

Íshellan hefur sigið um alls um 75m klukkan 14 í dag og hægt hefur verulega á siginu. Mælingar sýna einnig að talsvert hefur dregið úr hlaupóróa undir jökli frá því að óróinn náði hámarki í nótt. Hvoru tveggja eru vísbendingar um að Grímsvötn hafi tæmt sig af hlaupvatni að mestu. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporði Skeiðarárjökuls og út í Gígjukvísl. Því má vera að hlaupið í farvegi Gígjukvíslar hafi þegar náð hámarki. Það verður hinsvegar ekki ljóst fyrr en hægt verður að gera nýjar rennslismælingar.

Vatnamælingamenn á vegum Veðurstofunnar eru að störfum við Gígjukvísl en aðstæður til mælinga eru mjög slæmar vegna veðurs og því er ekki víst að nýjar mælingar berist fyrr en á morgun.

Enginn gosórói mælist
Náið hefur verið fylgst með skjálftavirkninni við Grímsvötn. Talsvert hefur verið um ísskjálfta sem mælast þegar íshellan brotnar vegna atgangsins í hlaupinu. Enginn gosórói mælist, en vísindamenn munu halda áfram að greina þá skjálfta sem mælst hafa.

Fyrri greinSelfyssingar tóku Valsmenn til bæna
Næsta greinNaumt tap á heimavelli