
Rafleiðni og vatnshæð í Leirá-Syðri og Skálm í Skaftárhreppi fór hægt vaxandi í nótt í kjölfar aukningar síðustu daga. Undir morgun tók vatnshæð og rafleiðni að lækka og lítur út fyrir að hlaupið í ánum hafi náð hámarki í Leirá í gærkvöldi og í Skálm við brúna yfir þjóðveg 1 nú í morgun.
Einnig hefur dregið úr óróa við Austmannsbungu frá því í morgun.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að líklegast sé að hlaupið haldi áfram í rénum og að rennsli hverfi aftur að venjulegu sumarrennsli. Ekki er hægt að útiloka að hvellsuða í jarðhitakerfum við jökulbotn verði af völdum þrýstingsléttingar í kjölfar hlaupsins. Slíkt gæti leitt til ísbráðnunar og aukins hlaupvatns.
Enn er of snemmt að segja til um framvinduna að svo stöddu og heldur sólarhringsvakt Veðurstofunnar áfram að fylgjast náið með þróun mælinga á svæðinu.
