Hlaup undan Köldukvíslarjökli

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur verið órói á mælum í vestanverðum Vatnajökli og hlaup hefur komið undan Köldukvíslarjökli og fallið inn í Hágöngulón.

Hlaupsins varð vart í Hágöngulóni kl. 23 í gærkvöldi. Hlaupið náði hámarki á milli kl. 2 og 4 í nótt og þá var rennsli inn í lónið að meðaltali um 2.000 rúmmetrar á sekúndu. Eftir það dró hratt úr hlaupinu og er rennsli inn í Hágöngulóni nú komið niður í 200 rúmmetra á sekúndu.

Lónið tók því að mestu við hlaupinu og umtalsverðra vatnavaxta er ekki að vænta neðan þess, hvorki í Köldukvísl né Þjórsá. Þó að vatnsmagn Köldukvíslar hafi aukist verulega er ekki mikilla vatnavaxta að vænta neðan lónsins.

Ekki er búið að staðsetja upptök hlaupsins ennþá en líklegt að þau séu austan við Hamarinn eða í vestanverðri Bárðarbungu.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur fylgst náið með ástandinu og Landsvirkjun, Landsnet og lögreglustjórar hafa verið upplýstir um þennan atburð.
Flogið verður yfir vestanverðan Vatnajökul um leið og tækifæri gefst en eins og stendur er skýjahula yfir jöklinum. Vísindamenn fylgjast með framvindunni og eru í nánu samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.