Hlaup hafið úr Eystri-Skaftárkatli

Skaftárhlaup. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

GPS mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar er farin að lækka. Það bendir til þess að hlaup sé hafið úr katlinum.

Mælingar sýna að íshellan byrjaði að lækka um kl. 23 í gærkvöldi og hefur hún lækkað um tæpan 1 m frá þeim tíma. Búast má við að í heildina lækki íshellan um 60-100m. Þetta hlaup kemur í kjölfar hlaups úr vestari katlinum sem nú er í rénun.

Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018 og miðað við vatnsstöðuna í katlinum er líklegt að þetta hlaup verði ámóta stórt. Hámarksrennsli hlaupsins 2018 var um 2.000 m3/sek sem er fjórfalt hámarksrennsli í hlaupinu úr vestari katlinum sem nú stendur yfir.

Þegar vatn hleypur úr Skaftárkötlunum rennur það fyrst um 40 km leið undir jöklinum og síðan um 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmælinum við Sveinstind. Ef miðað er við framgang hlaupsins 2018 má búast við að hlaupið sjáist á vatnshæðarmæli við Sveinstind á morgun, mánudaginn 6. september. Frá Sveinstindi tekur það hlaupvatnið tæpar 10 klst til viðbótar að ná vatnshæðarmæli í Eldvatni við Ása nærri hringveginum. Ef fram fer sem horfir mun hlaupvatn því ná að þjóðveginum annað kvöld.

Hlaupið núna úr vestari katlinum hefur hækkað grunnvatnsstöðu og getur því hlaupvatnið úr eystri katlinum dreift sér meira um flóðasvæðið en 2018. Við þetta bætist að talsverð úrkoma hefur einnig verið á svæðinu undanfarinn sólarhring.

Náttúruvárvakt Veðurstofunnar fylgist náið með þróun atburðarins og sendir frá sér nánari upplýsingar eftir því sem líður á atburðinn.

Fyrri grein„Lífið er alltof stutt til að borða óspennandi mat“
Næsta greinFrískir Flóamenn og vetrarstarfið