Hlakka til framhaldsins í heimabænum

Lindexfjölskyldan, Lóa Dagbjört og Albert Þór Magnússon ásamt börnum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Lindex fagnar eins árs afmæli verslunar sinnar á Selfossi um helgina, en hún opnaði þann 7. ágúst í fyrra. Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir hjá Lindex segir viðtökurnar á Selfossi hafa farið fram úr björtustu vonum þeirra.

„Við vorum spennt að sjá hvernig það myndi koma út að opna okkar stærstu verslun utan höfuðborgarsvæðisins í okkar heimabæ, Selfossi. Það var auðvitað hér sem þetta allt byrjaði, í bílskúrnum í Árbakkanum þar sem við seldum ný og notuð barnaföt,“ segir Lóa og bætir því við að hún hafi alltaf haft trú á Lindexversluninni á Selfossi.

„Ég auðvitað bjó hér sjálf og veit því frá fyrstu hendi hversu mikil þörf var á slíkri verslun hér. Svo býr stór hluti af bæði fjölskyldunni minni og vinum og þau hafa verið dugleg að minna mig á hversu mikið væri beðið eftir Lindex svo það var gaman að geta loksins opnað svona stóra og flotta verslun hér þar sem öllum vörulínunum er gerð góð skil,“ segir Lóa Dagbjört.

Mörgu að fagna og vera þakklát fyrir
Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi fer fram um helgina og er Lindex einn af styrktaraðilum hátíðarinnar, auk þess sem Lindex hefur stutt dyggilega við íþróttastarf á Selfossi frá því verslunin var opnuð.

„Við erum stórkostlega þakklát okkar frábæru viðskiptavinum hér á Suðurlandi sem hafa tekið svo frábærlega á móti okkur og það er fyrir tilstuðlan þeirra sem við getum tilkynnt að við höfum samið um að nýtt fjölnota íþróttahús Selfyssinga heitir LINDEX-höllin. Það er því mörgu að fagna og vera þakklát fyrir þegar við fögnum Sumar á Selfossi og fyrsta starfsári okkar í nýrri og glæsilegri verslun okkar. Við tökum þátt í hátíðarhöldunum og stöndum fyrir ýmiskonar skemmtiatriðum alla helgina s.s. Lindex ratleik o.fl. Við hlökkum mikið til framhaldsins í okkar heimabæ og þar sem þetta allt byrjaði og óskum Selfyssingum og Sunnlendingum öllum til hamingju með daginn,“ segir Lóa Dagbjört að lokum.

Fyrri greinStokkseyri og Hamar með heimasigra
Næsta greinEitt mark í botnslagnum