„Hlakka til að kynnast bæjarbúum betur“

Guðný Björk í versluninni Fresia við Eyraveg á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Gjafavöruverslunin Fresía var opnuð í dag að Eyrarvegi 15 á Selfossi. Eigandi verslunarinnar er Guðný Björk Pálmadóttir.

„Hugmyndin um að opna búð hefur blundað í mér lengi en einhvernvegin var aldrei rétti tíminn. En núna í gegnum COVID tímann hefur mitt eigið vörumerki blómstrað. Sú velgengni var mikil hvatning fyrir mig og skapaði tækifæri til að opna þessa verslun,“ segir Guðný Björk í samtali við sunnlenska.is.

„Ég ákvað að taka skrefið núna og láta drauminn rætast um að eiga fallega verslun þar sem ég get hitt viðskiptavini og fengið að njóta mín innan um fallegar vörur. Með þessu er ég líka að búa til ákveðna yfirbyggingu yfir mínar vörur og góða aðstöðu til að sinna þeim,“ segir Guðný, sem er hönnuður og innanhússráðgjafi.

Endurnýttar innréttingar
Guðný segir að undirbúningurinn hafi staðið yfir síðan í nóvember, eða síðan ákvörðunin var tekin um að opna verslunina. „Þá datt ég niður á húsnæði sem hentaði einstaklega vel og í framhaldi byrjaði ég að sanka að mér allskonar hillum og dóti inn á gefins síðunum á Facebook. Planið var alltaf að opna 1. febrúar þannig að í janúar var svo allt sett á fullt að koma búðinni upp; mála, smíða, græja og gera.“

„Meirihlutinn af innréttingunum og slíku er því gamalt dót sem hefur fengið nýtt líf, og því var mikil vinna sem fór í að pússa og mála. En að lokum tókst þetta allt, með dyggri aðstoð fjölskyldu og vina, og er búðin tilbúin á réttum tíma,“ segir Guðný.

Skandínavískur bohem stíll
„Ef ég ætti að reyna að reyna að setja stílinn í orð væri það sennilega skandínavískur bohem stíll, en ég legg mikið uppúr því að það sé heimilisleg og notaleg stemming þegar komið er inní búðina. Áherslan er að vera með vörur sem eru einstakar og kannski pínulítið öðruvísi. Einnig ætla ég að vera dugleg að vera með tilbúnar gjafapakkningar sem auðvelt er að taka með sér við hverskyns tilefni,“ segir Guðný.

Nú þegar verslunin hefur opnað segir Guðný henni helst í huga vera þakklæti. „Ég hef fundið ótrúlegan velvilja og áhuga frá bæjarbúum. Ég hlakka mikið til að eiga frekari samskipti við þá og kynnast þeim betur,“ segir Guðný að lokum.

Heimasíða Fresía

Verslunin við Eyraveginn er hin glæsilegasta og þar er margar forvitnilegar vörur að finna. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBindin fram í febrúar
Næsta greinHrunamenn og Selfoss töpuðu