„Hlakka til að eyða jólunum með allskonar fólki“

„Mér fannst það eiginlega skylda okkar að hafa Kaffi Krús opið. Þetta er orðið svo mikið að ferðamönnum sem eru hér um jól og áramót,“ segir Tómas Þóroddsson, veitingamaður á Kaffi Krús á Selfossi.

Opið verður á Kaffi Krús öll jólin og um áramótin, í fyrsta sinn frá opnun staðarins, fyrir 25 árum.

„Selfoss er orðinn mikill ferðamannabær og á þessu munum við lifa. Þannig að það er bara að standa sína plikt og lenda ekki í því sama og gerðist í Reykjavík fyrir sirka fimm árum síðan þegar allt var lokað og ferðamenn höfðu engan stað til að fara á yfir hátíðinar,“ segir Tómas í samtali við sunnlenska.is.

„Svo er það auðvitað leiðinlegt fyrir starfsfólk á hótelum og gististöðum að þurfa að svara fyrir það að ekkert sé opið, ekkert hægt að gera og erfitt fyrir eigendur gististaða að byggja upp sinn rekstur ef allt er lokað.“

Starfsfólkið jákvætt
Tómas segir að starfsfólkið hans hafi tekið ótrúlega vel í það að vinna um jólin. „Fimm fyrstu sem ég spurði sögðu öll já. Ég átti reyndar von á því, var búin að heyra hjá þeim að þau hefðu lítið að gera um jólin þar sem fjölskyldur þeirra búa erlendis. Kærastan mín tók líka bara mjög vel í þetta, enda geðgóð með eindæmum og hún ætlar að fá að vinna einhverja klukkutíma með mér á Krúsinni.“

Að sögn Tómasar verða þau fimm til sex á vaktinni. „Við eigum örugglega eftir að skiptast á jólasögum og jólasiðum. Vaktin verður skipuð fólki frá Tékklandi, Svíþjóð, Króatíu, Íslandi og Lettlandi þannig að ég á von á öðruvísi jólum.“

Pantanirnar hrannast inn
„Sólarhring eftir að við auglýstum að það væri opið voru rúmlega fimmtíu manns búnir að bóka sig á þessa rauðu daga, það er aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag. Þetta er fólk allstaðar að úr heiminum, bæði pör og fjölskyldur.“

„Ég verð með nýjan matseðil um hátíðirnar og spái því að lambafille og fiskurinn verði vinsælast,“ segir Tómas sem ætlar auk þess að bjóða upp á laufabrauðssmakk og íslenskt konfekt með kaffinu.

„Ég hlakka til að eyða jólunum með allskonar fólki. Hlakka til að láta þau segja mér sögur frá sínu heimalandi og borga til baka með sögum af jólasveinunum þrettán, Grýlu, Leppalúða og öðrum fjarskyldum ættingjum mínum. Vonandi fáum við smá snjókomu á aðfangadag og norðurljós á kvöldin. Þannig jól dreymir þessa ferðamenn um að upplifa,“ segir Tómas kátur að lokum.

Fyrri greinEkki alvarleg slys á fólki
Næsta greinSindri Seim setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi