Hjúkrunarrýmum fjölgað tímabundið

Velferðarráðuneytið hefur samþykkt að fjölga hjúkrunarrýmum á Kirkjuhvoli á Hvolsvelli um þrjú um stundasakir.

„Byggðarráð hvetur til þess að hjúkrunar- og dagvistunarrýmum verði fjölgað og fest í sessi en sú viðbót sem þegar er fengin er kærkomin og í henni felst viðurkenning ráðuneytisins á að nauðsynlegt er að fækka á biðlista á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli,“ segir í bókun ráðsins frá síðasta fundi. Sólveig Eysteinsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Kirkjuhvoli segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem rýmum er fjölgað þar tímabundið.

Með fjölguninni nú verða hjúkrunarrýmin 20 talsins en dvalarrými 13. Alls eru 33 til heimilis að Kirkjuhvoli, en talsverður biðlisti er eftir rýmum. „Það eru nú tíu á biðlista eftir hjúkrunarrými og tveir eftirdvalarrými,“segir Sólveig. Hún segir að stofnunin nái því ekki að anna öllum íbúum sveitarfélagsins sem vilja komast þar inn. „Við viljum auðvitað sjá stækkun, og höfum mestan áhuga á að byggja upp frekari aðstöðu,“ segir hún.

Fyrri greinNú er það hvítt
Næsta greinÞyrlu hlekktist á á Eyjafjallajökli