Hjörtur fékk menningar-viðurkenningu

Hátíðin Vor í Árborg hófst í gær og voru fjölmargar listsýningar opnaðar við það tilefni. Við setningu hátíðarinnar var Hirti Þórarinssyni afhent menningarviðurkenning sveitarfélagsins árið 2013.

Hjörtur hefur búið á Selfossi frá 1951 og hefur samhliða störfum sínum, sem kennari, skólastjóri og framkvæmdastjóri SASS, sinnt félagsmálum af mikilli atorku og áhuga. Hann hefur víða komið við í félagsmálunum og var m.a. einn stofnenda Tónlistarfélags Árnesinga árið 1955 og hefur staðið fyrir fjölmörgum tónlistarviðburðum ásamt því að syngja í kórum og semja vísur og ljóð.

Eyþór Arnalds og Kjartan Björnsson afhendu Hirti skjöld og blóm í tilefni af þessu. Á hátíðaropnuninni sungu síðan unglingakór Selfosskirkju undir stjórn Edit Molnár og síðan steig Hlín Pétursdóttir á svið ásamt Stefáni Þorleifssyni sem spilaði undir á píanó.

Vor í Árborg hófst með fjallgöngu á Ingólfsfjall en yfir sextíu manns, fullorðnir og börn gengu á fjallið í morgunsárið. Eftir hádegi opnaði hver dagskrárliðurinn á fætur öðrum og lauk deginum með tónleikum Harmonikkufélags Selfoss í Tryggvaskála.

Fyrri greinHandritin alla leið heim
Næsta greinAndri Páll fór á kostum