Hjólreiðamaður slasaðist í Reykjadal

Björgunarsveitir eru nú á leið inn í Reykjadal norður af Hveragerði til aðstoðar hjólreiðamanni sem féll af fáki sínum og slasaðist.

Var hann þá staddur við heita lækinn ofarlega í dalnum. Hann er ekki talinn alvarlega slasaður og hringdi sjálfur eftir hjálp en þarf aðstoð við að komast til byggða.

Böruburður í fjalllendi er afar erfitt verk og því ljóst að töluverðan mannskap þarf til verksins. Björgunarsveitamenn frá fjórum sveitum á Suðurlandi taka því þátt í aðgerðinni.

Sjúkrabíll mun bíða mannsins á bílastæðinu við Rjúpnabrekkur og flytja hann á sjúkrastofnun þegar komið verður með hann niður úr dalnum.