Hjólar 400 km til að vekja athygli á hreyfingu fatlaðra

Arnar Helgi Lárusson. Ljósmynd/Aðsend

Handahjólreiðamaðurinn Arnar Helgi Lárusson leggur af stað á morgun frá Höfn í Hornafirði en þaðan ætlar hann að hjóla 400 kílómetra á innan við sólarhring til að vekja athygli á hreyfingu hreyfihamlaðra.

Ferðalag Arnars hefst á morgun á Höfn á Hornafirði klukkan 16:00 og hægt verður að fylgjast með ferðinni á heimasíðu SEM og á samfélagsmiðlum SEM og Arnars Helga. Öllum er velkomið að slást í för með Arnari Helga og hjóla lengri eða skemmri hluta leiðarinnar með honum. Arnar áætlar að hjóla fyrri hluta leiðarinnar yfir nóttina og koma inn í Rangárvallasýslu seint um morguninn og vera á Selfossi seinni part miðvikudags.

Arnar tók síðustu æfinguna sína í gær fyrir átök morgundagsins og var hvergi banginn. „Það er von mín að ferðin verði öllum hvatning til að hreyfa sig meira. Láta ekki neitt standa í vegi fyrir sér heldur taka af skarið því hreyfing og líkamlegur styrkur eru nauðsynleg vopn allra í dagsins önn,“ segir Arnar, sem hefur aldrei áður hjólað viðlíka vegalengd. Undirbúningurinn hefur staðið í meira en ár.

Ljósmynd/Aðsend

Safnar fyrir sérútbúnum hjólum
Arnar lenti í mótorhjólaslysi í september árið 2002, þá 26 ára gamall, en í því slysi lamaðist hann frá brjósti og niður. Hann lét þó ekki deigan síga þrátt fyrir hreyfihömlunina og snéri sér fljótlega að íþróttum, fyrst lyftingum, svo hjólastóla-race og nú handahjólreiðum. Í dag er hann formaður SEM samtakanna, sem eru samtök endurhæfðra mænuskaddaðra.

Um leið og Arnar Helgi hjólar þessa 400 kílómetra vill hann benda á mikilvægi hreyfingar en hann og SEM samtökin hafa sett af stað söfnun fyrir kaupum á fjórum sérútbúnum hjólum. SEM Samtökin munu hafa umsjón með hjólunum en hvert þeirra kostar tvær og hálfa milljón króna. Verkefnið er unnið í samstarfi við Íþróttafélag fatlaðra. Hjólin verða lánuð hreyfihömluðu fólki endurgjaldslaust til þess að hvetja það til hreyfingar.

Heiðursgestur á KIA Gullhringnum
Arnar verður heiðursgestur á KIA Gullhringnum á Selfossi þann 10. júlí næst komandi en það er stærsta hjólreiðakeppni landsins og vilja skipuleggjendur keppninnar vekja athygli á því um leið að keppnin er opin öllum sem vilja hjóla.

Allir sem vilja styrkja verkefnið geta sett sig í samband við SEM samtökin, Íþróttafélag fatlaðra eða Arnar Helga sjálfan. Allt fjármagn sem kemur inn í tengslum við verkefnið mun fara í kaup á hjólum til hreyfingar.

SEM samtökin, kennitala 510182-0739 – Reikningsnúmer 0323-26-001323. Skýring: Km400

Fyrri greinAlexander áfram á Selfossi
Næsta greinÁtta tíma leit að göngufólki á Laugaveginum