Hjólabók Ómars Smára komin út á ensku

Hjólabókin eftir Ómar Smára Kristinsson er komin út á ensku hjá Vestfirska forlaginu á Þingeyri.

Á ensku nefnist bókin „The Biking Book of Iceland – Day trip cycle circuits – Part 1: The Westfjords“. Nú er í óða önn verið að koma henni í hillur sölustaða vítt um land.

Eins og í íslensku útgáfunni er í þessari nýju bók lýst fjórtán mis-krefjandi dagleiðum sem liggja í hring. Fjölmargar litmyndir eru á sínum stað, sem og kortin og hinar gagnlegu upplýsingar um bratta, vegalengdir, drykkjarvatn, hættur og margt fleira. Það sem aðgreinir bækurnar snýr beint að tungumálinu; íslensku örnefnin eru útskírð. Í stað örnefnaskrár er komin íslensk-ensk „örnefnaorðabók“.

Höfundur Hjólabókarinnar, Ómar Smári, vinnur um þessar mundir hörðum höndum (öllu heldur fótum) við gerð næstu bókar, sem fjallar um dagleiðir á Vesturlandi, ætlaðar hjólreiðafólki. Sú bók mun koma út fyrir jólin 2012 og á ensku vorið 2013. Þannig mun útgáfan ganga koll af kolli, uns lýst hefur verið ákjósanlegum hjólreiðaleiðum hringinn í kringum landið.

Fyrri greinStarfshópur fundar ári eftir að hann var skipaður
Næsta greinSveitagrillvagn í amerískum anda