Hjólabátaútgerð gæti hafist aftur

Verið er að skoða möguleika á að hefja fiskveiðar frá Vík í Mýrdal á ný en þær hafa legið niðri um margra ára skeið.

Það er Gísli D. Reynisson, eigandi Mýrdælings ehf., sem fer fyrir hópnum sem er að velta þessu fyrir sér. Að sögn Gísla hafa nýjar reglur um strandveiðar skapað möguleika á að hefja aftur fiskveiðar en hann stundaði útgerð með hjólabátum á árunum 1986 til 1991. Hann á tvo hjólabáta sem hafa staðið inni í húsi síðan árið 2000 þegar hætt var að nota þá til siglinga með ferðamenn.

“Það er dálítið spennandi að skoða þetta en segja má að kvótakerfið hafi stöðvað veiðarnar á sínum tíma,” segir Gísli en ítrekar að þetta sé ennþá á skoðunarstiginu.

Að sögn Gísla er stutt sigling út á miðin, um hálfur til einn klukkutími.

Ef af verður er ætlunin að selja fiskinn í nágrenninu eða flytja hann á markað.