Hjóla 100 kílómetra í góðgerðarhjólreiðum

Hjónin Guðrún Nína Óskarsdóttir frá Selfossi og Árni Sæmundsson taka þátt í góðgerðarhjólreiðunum Nightrider í London aðfaranótt næstkomandi sunnudags.

Um er að ræða 100 kílómetra hjólaferð um miðborg Lundúna en þau ætla að hjóla til styrktar Action Duchenne félaginu. Það styrkir rannsóknir á Duchenne muscular dystrophy hrörnunarsjúkdómnum en litli bróðir Guðrúnar, Guðjón Reykdal Óskarsson, þjáist af honum. Tíminn greinir frá þessu.

Hafa þau nú þegar safnað um 140.000 krónum en eru enn að safna áheitum og segir Guðrún að það væri frábært að ná 200.000 krónum eða meira. Allur ágóðinn mun síðan fara í rannsóknir félagsins á sjúkdómnum en nýjustu rannsóknir sýna að það sé jafnvel hægt að stöðva framgang sjúkdómsins og láta hann ganga tilbaka segir Guðrún.

Guðjón Reykdal, bróðir Guðrúnar, er einn af um tíu manns sem eru greindir með sjúkdóminn á Íslandi. Er þetta vöðvarýrnunarsjúkdómur sem leggst einungis á stráka, hann greinist yfirleitt á fyrstu fimm árunum en um tíu ára aldurinn eru þeir flestir komnir í hjólastól.

Guðrún Nína og Árni halda til Lundúna á morgun, föstudag en hjólreiðarnar fara fram aðfaranótt sunnudags. Þeir sem vilja heita á Guðrúnu Nínu og Árna geta lagt inn á reikning Guðrúnar: 0586-26-8783 kt: 271087-3069.

Fyrri greinSkólaskrifstofu Suðurlands lokað um áramót
Næsta greinGrillað á Selfossi um helgina