Hjáleiðin greiðfær en Rauðholtið stíflað

Rauðholt. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Austurvegur – Þjóðvegur 1 á Selfossi – er lokaður við Rauðholt vegna framkvæmda og verður næstu vikurnar.

Á meðan Austurvegurinn er lokaður er umferð stærri bíla er beint um hjáleið um Fossheiði og Langholt en umferð fólksbíla er beint um Reynivelli, Engjaveg og Langholt eða Heiðmörk, Árveg og Hörðuvelli.

Þessar hjáleiðir virðast fara algjörlega framhjá ökumönnum sem eiga leið í gegnum Selfoss en þær eru merktar á skiltum á nokkrum stöðum í bænum. Þannig hefur verið gríðarleg umferð í gegnum planið hjá Skalla og N1 yfir í Rauðholtið.

Eins fer mikill fjöldi þungra vörubíla um Hörðuvellina, sem er gömul og illa farin gata í eldri hluta bæjarins og má vart við öllum þessum þunga.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt eru teknar með nokkurra mínútna millibili, önnur hér fyrir ofan í Rauðholtinu – sem er ekki hjáleið – og hin hér fyrir neðan á Reynivöllunum sem er hjáleið vegna framkvæmdanna.

Umferðarhnúturinn í Rauðholtinu heldur síðan áfram austur Engjaveg og Langholt.

Engin tilkynning er um þessa lokun á Þjóðvegi 1 á heimasíðu Vegagerðarinnar, en reyndar kemur fram á korti um ferðaupplýsingar að vegavinna sé á Þjóðvegi 1 á Selfossi.

Reynivellir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

TENGDAR FRÉTTIR:
Austurvegi lokað við Rauðholt

Fyrri greinSandra Rún ráðin skólastjóri
Næsta greinJakob Veigar gefur Hveragerðisbæ málverk