Hitamet á Hjarðarlandi – þrumuveður í kvöld

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Hitamet sumarsins á landinu er fallið annan daginn í röð en á fjórða tímanum í dag fór hitinn í 26,9°C á Hjarðarlandi í Biskupstungum.

Við Gullfoss var 26,7°C hiti og 25,6°C hiti var á Þingvöllum um miðjan dag í dag. Það er líka hlýtt á hálendinu því á Hveravöllum var 24°C kl. 17 í dag.

Í gær mældist hitinn 25,9°C í Ásbyrgi og var það hlýjasti dagur sumarsins hingað til.

Þrumubakki þokast nær
Það má svo búast við þrumuveðri í kvöld en 
víða verða skúrir í nótt með auknum líkum á þrumuveðri. Visir.is greinir frá því að þrumubakki komi upp að landinu í kvöld, fyrst inn á suðausturland en færi sig svo í vestur yfir á Suðurlandið. Ef veðrið nær sér á strik má búast við þrumubakkanum á ellefta tímanum í kvöld og gæti veðrið varað alveg fram undir klukkan níu í fyrramálið.

Fyrri greinBjörk með HSK met í Laugavegshlaupinu
Næsta greinTíu milljónir króna í kynningarherferð fyrir Árborg