„Hissa og ótrúlega ánægð“

„Ég er bara eiginlega hissa og ótrúlega ánægð. Auðvitað setti ég stefnuna á þetta sæti en það voru margir sterkir kandítatar að keppa að sama marki.“

Þetta sagði Arna Ír Gunnarsdóttir í samtali við sunnlenska.is eftir að úrslitin í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi voru kunn. Arna Ír fékk góða kosningu í 3. sætið.

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir þennan breiða stuðning sem ég hef fengið í þetta sæti og það er það sem er mér efst í huga núna,“ sagði Arna Ír. „Þetta er sterkur listi og mjög góð breidd í honum. Við erum með Oddnýju úr Garðinum og síðan Árna Rúnar í fjórða sæti austur á Hornafirði þannig að við erum með breiddina í þessu stóra kjördæmi og ég met það mjög sterkt fyrir listann.“

Arna Ír, sem kemur ný inn í landsmálabaráttuna, segir að kosningabaráttan í flokksvalinu hafi verið drengileg en mjög erfið.

„Þetta var skemmtilegt, það var mjög góður andi í hópnum og við áttum gott samtal við hvert annað allan tímann. En að sama skapi var þetta líka erfitt. Það er mjög erfitt að vera í svona baráttu og ég er óskaplega fegin að þetta sé búið og við að getum fengið hvíld næstu daga en það er virkilega spennandi vetur framundan.“