Hin myllan í Þykkvabænum einnig brunnin

Myllan brennur. Ljósmynd/Gyða Árný Helgadóttir

Önnur vindmyllan í Þykkvabænum eyðilagðist í dag í eldsvoða. Myllurnar eru tvær, en hin eyðilagðist einnig í eldi sumarið 2017.

„Það er ekki gott að segja hvað hefur gerst þarna en menn telja að hún hafi farið af stað í rokinu og ofhitnað á bremsunni,“ sagði Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Rangárvallasýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Útkallið barst klukkan 15:11 í dag og fóru tuttugu slökkviliðsmenn frá Hellu á vettvang. Þeir gátu þó lítið aðhafst, þar sem mótorhús myllunnar er í 52 metra hæð og vatnsdælur slökkviliðsins drífa ekki svo hátt.

„Það var talsverður eldur í myllunni í upphafi og það barst reykur og gríðaleg fýla yfir þorpið. Myllan var látin brenna en við þurftum að slökkva gróðri og braki sem féll til jarðar. Síðan drapst bara í þessu og við vorum komnir til baka fyrir klukkan fimm,“ sagði Leifur einnig.

Myllurnar í Þykkvabænum hafa ekki verið í gangi undanfarin ár, önnur brunnin og hin biluð og fyrirtækið Biokraft sem rak myllurnar var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2019.

Áramótin voru annars nokkuð róleg hjá Brunavörnum Rangárvallasýslu. Í gærkvöldi kviknaði eldur í Hvolsfjalli við brennuna á Hvolsvelli og klukkan hálfellefu í morgun var tilkynnt um gróðureld við Rauðalæk en bæði útköllin voru fljótafgreidd.

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá vettvangi í dag, sem Gyða Árný Helgadóttir tók.

Fyrri greinÓlafía sæmd fálkaorðunni
Næsta greinHeitavatnsskortur vegna bilaðrar borholudælu