Hildur bjó til bestu ostakökuna

Dómnefndin og sigurvegarinn (f.v.) Gabríella Tómasdóttir og Elín Tómasdóttir frá Kaffi Krús, Hólmfríður Magnúsdóttir frá MS, Már Ingólfur Másson, fulltrúi fólksins og Hildur Lúðvíksdóttir. Ljósmynd/Tómas Þóroddsson

Hildur Lúðvíksdóttir á Selfossi sigraði í árlegri skyr- og ostakökusamkeppni Kaffi Krúsar og MS sem haldin var á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi um síðustu helgi.

„Það var góð þátttaka í keppninni, ellefu keppendur og ég held að það sé óhætt að segja að dómnefndin hafi aldrei átt jafn erfitt með að skera úr um úrslitin því þarna voru margar frábærar kökur,“ sagði Tómas Þóroddsson, veitingamaður á Kaffi Krús í samtali við sunnlenska.is.

Keppendur fengu hráefni frá Kaffi Krús og MS til þess að búa til köku og þær voru síðan metnar af dómnefnd sem skipuð var fulltrúum Kaffi Krúsar og MS og fulltrúa fólksins.

Kakan sem sigraði var jarðaberja- og hvítsúkkulaði ostakaka Hildar Lúðvíksdóttur og hlaut Hildur vegleg verðlaun frá Kaffi Krús en að auki fengu allir þátttakendur ostakörfu frá MS og gjafabréf frá Kaffi Krús. 

Hildur er enginn nýgræðingur í ostakökubransanum en til gamans má geta þess að hún sigraði í þessari sömu keppni fyrir fjórum og fimm árum síðan. Nýjasta vinningskakan verður í sölu á Kaffi Krús um óákveðinn tíma.

Sigurkakan er heldur betur girnileg. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHellisheiðin lokuð
Næsta greinSlökkt í mosa á Nesjavallaleið