Heysöfnun fer ágætlega af stað

Bændasamtök Íslands og Búnaðarsamband Suðurlands hófu í gær að afla upplýsinga um þá bændur sem viljugir eru að selja hey inn á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli.

„Þetta fer ágætlega af stað, það hafa 25 aðilar haft samband og þeir eru með allt frá 20 rúllum upp í 1500. Við vonumst að sjálfsögðu eftir meira því það er ljóst að það þarf tugþúsundir af heyrúllum í þetta verkefni,“ sagði Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum, í samtali við sunnlenska.is.

Um er að ræða fyrningar sem unnt er að flytja með skömmum fyrirvara eða nýtt hey sem verður til ráðstöfunar seinni hluta sumars.

„Við viljum hvetja menn til að hafa samband við Bændasamtökin ef þeir eru aflögufærir með hey,“ segir Tjörvi. Þeir bændur sem telja sig reiðubúna að selja fyrningar eða gefa fyrirheit, án skuldbindinga, um hey í lok sláttar geta hringt í síma 563-0300 eða sent tölvupóst á bella@bondi.is. Nauðsynlegt er að fram komi áætlað magn sem hægt er að selja, mat á heygæðum og lágmarksverð.

Tjörvi segir mikilvægt að bændur láti vita strax. Unnið sé að heildaráætlun um fóðuröflun á gossvæðinu og því er nauðsynlegt að fyrir liggi sem allra fyrst yfirlit um mögulegt heyframboð utan svæðisins.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Bændasamtakanna.