Heyrnarmæling nýbura í boði á Suðurlandi

Ungur Selfyssingur heyrnarmældur og virðist hann lítið kippa sér upp við mælinguna. Ljósmynd/HSU

Fimm ljósmæður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi hafa nú fengið þjálfun í heyrnarmælingu nýbura og ungbarna en Sunnlendingar hafa þurft að leita til Reykjavíkur til þess að fá þessa þjónustu.

Öllum börnum á Íslandi er boðin skimun fyrir heyrnarleysi og árlega greinast eitt til tvö af hverjum þúsund börnum með einhverja gráðu heyrnaskerðingar.

Í þessari viku komu sérfræðingar frá Heyrnar og talmeinastöð Íslands á HSU og þjálfuðu ljósmæður stofnunarinnar. Heyrna- og talmeinastöðin sér ljósmæðrum fyrir mælitækjum.

Nú verður því framvegis boðið upp á heyrnamælingu nýbura við fimm daga barnalæknisskoðun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og einnig verður hægt að heyrnamæla þau ungbörn sem ekki hafa enn fengið heyrnamælingu.

Fyrri greinBjartur og fagur dagur í Hrunaréttum
Næsta greinTokic kominn í tuttugu mörk