Hetjulundur vígður á Ketilsstöðum

Hvíldarheimilið Hetjulundur var vígt í gær af Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna en heimilið er hugsað sem athvarf fyrir krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra á meðan á erfiðleikum þeirra stendur.

Auk vígslunnar var heimilið formlega tekið í notkun í gær. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá góðgerðarfélaginu Á allra vörum og Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.

Það var séra Pálmi Matthíasson sem blessaði húsið að viðstöddum forsvarsmönnum styrktarfélagsins, Á allra vörum, styrktaraðilum, verktökum og félagsmönnum. Á allra vörum stóð fyrir sinni annarri landssöfnun árið 2009 með sölu á glossum og beinni sjónvarpsútsendingu en sú söfnun var tileinkuð hvíldarheimili fyrir SKB. Ár er síðan fyrsta skóflustungan var tekin að húsinu en það stendur í landi Ketilsstaða í Holta- og Landssveit.

„Hér er að rætast stór draumur og það er ólýsanlegt fyrir okkur stöllur „Á allra vörum“ að sjá hann verða að veruleika. Það er hægt að áorka flestu ef viljinn er fyrir hendi og samtaka kraftar taka sig saman“, segir Gróa Ásgeirsdóttir ein forsvarskvenna á „Á allra vörum“.

Fyrri greinHarma að lokun sé ekki virt
Næsta greinDelludagur 2011 – MYNDIR