Hesthús við Vík í hættu

Hesthús við sjávarkambinn austan við Vík í Mýrdal eru í hættu vegna sjógangs. Síðustu daga hefur sjór brotið marga metra framan af ströndinni við hesthúsin.

Sjó braut á einu hesthúsanna í gærkvöldi og voru hross í húsinu færð í annað hús. Þrjú hús eru á svæðinu og í þeim bæði hross og kindur.

Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að erfitt væri að ætla sér að verja húsin á svo stuttum tíma því von er á næsta flóði kl. 18 í dag. “Þetta var mjög slæmt í gærkvöldi og í morgun þar sem sjórinn gekk yfir mikið svæði. Þarna fer saman stórstreymi og suðvestan hvassviðri. Vindáttin gæti verið vestlægari í kvöld og ágjöfin þá minni. Menn hafa verið að fjarlægja skepnur úr húsunum en það er takmarkað sem hægt er að gera að svo stöddu til að verja húsin.”

Landrof hefur verið mikið á þessu svæði síðustu daga og segir Ásgeir að aðeins séu rúmir 10 metrar eftir í ljósleiðara sem liggur rétt innan við sjávarkambinn.