Hesthús stórskemmt eftir bruna

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu var kallað að hesthúsahverfinu við Eyrarbakka kl. 11 í morgun þar sem eldur hafði komið upp í hesthúsi.

Vegfarendur urðu eldsins varir rétt fyrir klukkan ellefu en að sögn sjónarvotta magnaðist hann mjög hratt upp og þegar slökkviliðið kom á vettvang, átta mínútum eftir útkall var syðri endi hússins alelda.

Engir hestar voru í húsinu en nágranna tókst að opna húsið og hleypa stærstum hluta af hænsnahópi sem var í húsinu út.

Slökkviliðsmönnum gekk vel að vinna á eldinum en ljóst er að tjónið á húsinu er töluvert. Eldsupptök eru ekki ljós en grunur leikur á um að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni.

Fyrri greinÞakkar Selfyssingum fyrir frábær viðbrögð
Næsta greinSunnlenskir hnappar í útrás