Hestheimar er bær mánaðarins

Bær júnímánaðar hjá Ferðaþjónustu bænda er Hestheimar í Ásahreppi. Gestgjafar á bænum eru Lea Helga Ólafsdóttir og Marteinn Hjaltested.

Hestheimar er fjölskylduvænt ferðaþjónustubýli, frábær kostur fyrir hesta- og dýraunnendur sem og aðra sem gera kröfur um góðan aðbúnað, en að sama skapi vilja láta sér líða vel í heimilislegu umhverfi og gæða sér á heimatilbúnum réttum úr hlýlega opna eldhúsinu.

Hestheimar eru í aðeins 50 min akstursfjarlægð frá Reykjavík. Þar er í boði gisting í 12 tveggja manna herbergjum í aðalbyggingunni og í notalegu gestahúsi, í tveimur smáhýsum auk svefnpokagistingar á hlöðulofti.

Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptavinum og mati starfsfólks Ferðaþjónustu bænda hefur þeim Leu Helgu og Marteini tekist einstaklega vel að skapa þægilegt og heimilislegt andrúmsloft á staðnum. Gestir geta til dæmis slakað á í heitu pottunum við gistihúsin og notið útsýnisins að Eyjafjallajökli eða norðurljósannna auk þess sem hægt er að panta jógakennslu og nudd. Í hlýlega opna eldhúsinu er hefðbundinn íslenskur heimilismatur einnig í hávegum hafður. Hátt þjónustustig Hestheima sést best á því að margir gestanna koma aftur ár eftir ár.

Starfsemin á Hestheimum er afar fjölbreytt. Rík áhersla er lögð á hestaferðir, sýningar á íslenska hestinum og reiðnámskeið og er hestaleiga opin allt árið. Margar góðar reiðleiðir eru í nágrenninu og lengri hestaferðir eru í boði yfir sumarið. Í Hestheimum hafa einnig verið sölusýningar hesta í 12 ár og er það elsta sölusýning landsins.

Dýrin á bænum eru fjölmörg fyrir utan hestana, sem vekur gjarnan kátínu yngri gesta. Það eru þó ekki einungis menn og dýr sem lifa í sátt og samlyndi á Hestheimum. Kunnugir segja að álfabyggðirnar í Hestheimum séu með þeim alstærstu á landinu.

Bær mánaðarins
Bær mánaðarins er nýjung hjá Ferðaþjónustu bænda og gengur þannig fyrir sig að í byrjun hvers mánaðar er valinn einn ferðaþjónustubær innan vébanda Ferðaþjónustu bænda sem hefur staðið sig sérstaklega vel á sviði gæða – og umhverfismála, vöruþróunar og í þjónustu við viðskiptavini. Þá er einkum horft til sérstöðu staðarins og nýbreytni á sviði þjónustu og afþreyingar. Val á bæ mánaðarins byggist á umsögnum gesta og mati starfsfólks skrifstofu Ferðaþjónustu bænda. Fyrsti bær mánaðarins, bær maí mánaðar var Hótel Rauðaskriða í Aðaldal.

Nánari upplýsingar um bæ mánaðarins má finna hér.

Um Ferðaþjónustu bænda
Ferðaþjónusta bænda hf. er ferðaskrifstofa í eigu bænda sem býður upp á fjölbreytta gistingu hjá 180 ferðaþjónustuaðilum um allt land; á sveitahótelum, í gistihúsum, sumarhúsum, heimagistingu, svefnpokaplássi og á tjaldsvæðum. Boðið er upp á mikið úrval afþreyingar og áhersla er lögð á mat heima úr héraði, með sjálfbærni og persónulega þjónustu að leiðarljósi. Nánar á www.sveit.is.

Nánari upplýsingar um gistingu, afþreyingu og aðra þjónustu á vegum Ferðaþjónustu bænda er að finna á www.sveit.is, þar sem viðskiptavinir geta einnig sett saman sína eigin ferðaáætlun.