Hestapestin enn á ferðinni

Hestapestin er enn á ferðinni og einstaka hross eru að sýna einkenni pestarinnar, hósta, slím í nösum og jafnvel vægan hita.

Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að þetta sé fullkomlega eðlilegt og raunar það sem búist var við.

“Hestapestin er komin til að vera og við gerum ráð fyrir að ungviðið og einstaka hestar fái pestina, segir Sigríður. “Þetta er yfirborðssýking í öndunarvegi og það er engin sérstök hætta á ferðum. Hestarnir verða að komast yfir þetta sjálfir.”

Hestaeigendur þurfa að viðhafa eðlilegt eftirlit og hlífa þeim hestum sem sýna mikil einkenni, svo sem hita.

Sigríður viðhafði mikið eftirlit á Landsmóti hestamanna á dögunum en varð ekkert vör við pestina þar.