Herrakvöld tilvalið í innkaupin

Nokkrir verslunareigendur á Selfossi hafa tekið höndum saman og hyggjast hafa sérstakt Herrakvöld annað kvöld, fimmtudagskvöldið 12. desember.

Þá verður opið sérstaklega aukalega á milli kl. 20 og 22 þetta kvöld í verslununum Motivo, Karli R. Guðmundssyni ehf, Sportbæ/Skóbúð Selfoss, Fjallkonunni og Sjafnarblómum. Þetta sama kvöld verður sértilboð á ölföngum í Tryggvaskála.

Kolbrún Markúsdóttir kaupmaður í Sjafnarblómum segir hugmyndina þá að skilja karlana ekki útundan í jólaversluninni og aðstoða þá við innkaupin.

„Það eru sífelld kvennakvöld, en nú datt okkur í hug að það væri tilvalið að karlarnir færu út að versla saman og haft gaman af því,“ segir Kolbrún. Þannig færu þeir í jólagjafaleiðangur saman og klára jólagjafainnkaupin á einu bretti. „Við bjóðum þeim upp á sérstaka hjálp við innkaupin, já og pakka inn og ganga frá gjöfinni, þeir þurfa ekki einu sinni að taka með sér pakkann strax, geta skilið hann eftir og sótt seinna, ef þannig stendur á,“ segir Kolbrún.

Hún segir að auk þess verði örugglega eitthvað öðruvísi og skemmtilegt um að vera í verslununum þetta kvöld. Kolbrún bætti því við að hún vildi hvetja sunnlenska karlmenn til að hóa í félaga sína í öðrum héruðum eða sunnan úr Reykjavík að koma með sér á skemmtilegt búðarölt á Selfossi.

Fyrri greinFleiri áhorfendur en færri folöld
Næsta greinFyrstu titlar Smára og Brynhildar í fullorðinsflokkum