Hermann ráðinn yfirmaður sjúkraflutninga

Hermann Marinó Maggýjarson hefur verið ráðinn í stöðu yfirmanns sjúkraflutninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, frá 1. apríl næstkomandi til 5 ára.

Hermann er fæddur árið 1977 en hann hóf störf sem sjúkraflutningamaður við Heilsugæslu Ólafsvíkur 1999. Síðan starfaði hann sem lögreglumaður á Suðurlandi og í framhaldi af því sem slökkviliðs- og neyðarflutningamaður hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þá tók hann við starfi sem sjúkraflutningamaður við HSU árið 2010 og gegnir í dag stöðu varðstjóra en var þar á undan staðgengill varðstjóra frá árinu 2011. Hann hefur undanfarna tvo mánuði starfað tímabundið sem yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi í afleysingum.

Hermann Marinó hefur kennt hjá Sjúkraflutningaskólanum frá árinu 2005 og einnig unnið við kennslu í skyndihjálp. Hann hefur starfsmenntun sem atvinnuslökkviliðsmaður, neyðarflutningsmaður og sjúkraflutningsmaður, auk þess að hafa lokið prófi í bifreiðasmíði. Nú síðast lauk Hermann Marinó námi sem bráðatæknir frá National Medical Education & Training Center í Boston árið 2017.

Fyrri greinÞórsarar með bakið upp við vegg
Næsta grein„Rökrétt skref til framtíðar“