Herjólfur til Þorlákshafnar fram yfir páska

Herjólfur mun sigla til Þorlákshafnar fram yfir páska. Ekki verða teknar upp áætlunarsiglingar í Landeyjahöfn fyrr en vitað er með vissu að hægt sé að sigla þangað til lengri tíma.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær eru miklir umhleypingar framundan og miðað við ölduspá verður ölduhæðin yfir 2 m fram til 20. apríl. Eftir það þarf nokkra daga við góðar aðstæður til að opna höfnina á nýjan leik.

Því hafa Eimskip og Vegagerðin tekið þá ákvörðun að ekki verði teknar upp áætlanasiglingar til og frá Landeyjahöfn fyrr en hægt verður að sigla í höfnina með nokkurri vissu til lengri tíma.

Í tilkynningu frá Eimskip og Vegagerðinni segir að mikilvægt sé að vissu og öryggis gæti í samgöngum á milli lands og Eyja, ekki síst á dögunum í kringum páska þegar margir landsmenn eru á faraldsfæti. Brýnt er, að farþegar hafi vissu fyrir því hvert verður siglt og hvenær.

Tekið skal fram að endurmat á öldu-, veður- og dýpkunarspám fer reglulega fram á þessum tíma. Gefist færi á að opna höfnina fyrr verður það gert. Þangað til verða allar ferðir farnar í Þorlákshöfn samkvæmt áætlun og viðskiptavinum bent á að einungis er bókað í ferðir til Þorlákshafnar þar til annað verður ákveðið.