Herjólfur kominn yfir 40.000 farþega

Herjólfur hefur nú flutt yfir 40 þúsund farþega milli Eyja og Landeyjahafnar en allt árið í fyrra ferðuðust 127 þúsund farþegar með skipinu.

Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri Eimskips innanlands, segir að aukningin sé veruleg og umfram það sem menn bjuggust við. „Auðvitað er Þjóðhátíðin sprengjutími sem telur um 20 þúsund farþega og farþegafjöldinn tvöfaldaðist hjá okkur núna miðað við síðustu verslunarmannahelgi,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is.

Farþegaflutningar úr Landeyjahöfn hófust þann 21. júlí og segir Guðmundur að reynslan af nýju höfninni sé mjög jákvæð en auk þessa mikla farþegafjölda hefur Herjólfur flutt um fimmþúsund bíla milli lands og Eyja.

„Skóinn hefur aðeins kreppt varðandi bílaflutningana en við tökum 55-70 bíla í hverri ferð og það hefur komið fyrir að fólk hafi þurft að skilja bílana sína eftir í Landeyjum. Það á sérstaklega við í vinsælustu ferðunum sem eru í hádeginu frá Landeyjum.“

Mikið er um það að farþegar bóki ferðir á staðnum og mikil aukning hefur verið í ferðum erlendra ferðamanna. „Þeir voru ekki mikið að taka Herjólf áður það sem það þýddi að þeir þyrftu þá að kaupa sér gistingu í Eyjum. Núna fara menn fram og til baka á einum degi,“ segir Guðmundur og bætir við að úti í Eyjum finni menn fyrir gríðarlegum áhuga á Vestmannaeyjum.

„Þó að höfnin sé enn á byggingarstigi og ýmis frágangur sé þar eftir þá gengur allt vel og við finnum að þetta gleður fólk. Þetta er svo sannarlega lyftistöng fyrir allt Suðurland,“ segir Guðmundur að lokum.

Fyrri greinGötuboltamót á Hellu
Næsta greinIngileif leikur í Selinu