Herjólfur festist í höfninni

Herjólfur festist í Landeyjahöfn á háfjöru í nótt og er nú verið að endurskoða siglingaáætlun hans með tilliti til sjávarfalla.

Þriggja tíma töf var á ferð Herjólfs frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja í nótt. Skipið sem átti að leggja af stað klukkan þrjú fór ekki fyrr en klukkan sex í morgun.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is stendur til að nota stóra gröfu til að dýpka höfnina við bryggjuna í dag. Þá hefur hádegisferð Herjólfs verið flýtt til kl. 11:30 og líklegt þykir að fleiri ferðir muni raskast.

Farþegar tóku seinkunni í nótt flestir vel en þeim var boðið upp á kaffi og var þjóðhátíðarstemmning í mannskapnum.