Herjólf vantar sex milljónir frá ríkinu

Bæjarstjórn Vestmannaeyja og Eimskip hafa gert með sér samkomulag sem felur í sér um að hvor aðili greiði þriðjung þess sem kostar að fjölga ferðum Herjólfs í Landeyjahöfn í fjórar ferðir að meðaltali á dag.

Nú er áætlað að skipið sigli 1360 ferðir á ári en Eimskip hefur reiknað að heildarkostnaður við fjölgun ferða um 125, sé 18 milljónir.

Nú stendur einungis á hinu opinbera að leggja fram 6 milljónir í verkefnið eða 33% af heildarkostnaðinum. Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti samkomulagið á bæjarstjórnarfundi í gær en greint er frá þessu á vef Eyjafrétta.

„Vestmannaeyjabær og þingmenn Suðurlands hafa ítrekað reynt að fá skilning á mikilvægi þessara viðbótaferða hjá samgönguyfirvöldum en vegna niðurskurðar í ríkisfjármálum hafa samgönguyfirvöld ekki getað orðið við slíkri beiðni,“ segir í minnisblaði bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

Fyrri greinJón Vilhjálms: Engin stóryrði – ræðum möguleikana
Næsta greinVatn úr Ölfusbrunni um alla Norður-Ameríku