
Í sumar mun HERE kortleggja stærstan hluta íslenska vegakerfisins með mjög nákvæmri þrívíddartækni (3D) í því skyni að geta boðið upp á þau nákvæmustu kort sem völ er á.
Fólksbílum á vegum HERE verður á tímabilinu maí til og með ágúst ekið eftir þjóðvegum, stofnvegum og götum landsins. Bílarnir eru búnir nýjustu tækni til að safna mjög nákvæmum upplýsingum á leið sinni, þar á meðal akreinamerkingum og skiltum. Bílarnir, sem eru kyrfilega merktir HERE, munu einnig taka þrívíðar myndir og götumyndir, auk mynda af tilteknum stöðum á borð við verslanir, bensínstöðvar og veitingastaði.
Upplýsingarnar verða notaðar við gerð ítarlegra korta af Íslandi, sem hönnuð verða til að styðja m.a. við akstur sjálfkeyrandi ökutækja og aðra háþróaða þjónustu sem bætt getur umferðaröryggi, dregið úr umferðarteppum og gert fólki kleift að komast með sem greiðustum hætti milli áfangastaða í þéttbýli.
HERE er skuldbundið til að virða og vernda friðhelgi einkalífs almennings. Safnað myndefni geymist til að byrja með í ökutækjunum en verður síðan flutt dulkóðað á öruggan geymslustað á vegum fyrirtækisins. Þar verða gögnin unnin með háþróuðum hugbúnaðarkerfum og algórisma til að greina og hylja andlit og bílnúmer. Myndir verða aðeins birtar eftir að andlit og bílnúmer hafa verið þokuð. Ef það skyldi gerast í einhverjum tilvikum að skygging persónugreinanlegra mynda sé ekki nægileg er auðvelt að tilkynna slíkt til HERE með því að velja viðkomandi mynd og smella á tengilinn „Tilkynna mynd“ neðst í vinstra horninu á kortinu. Hægt er að kynna sér verkefnið nánar hér.
